„Aðdragandinn var mjög stuttur,“ sagði Dagný Brynjarsdóttir landsliðskona í fótbolta í samtali við mbl.is en hún samdi í vikunni við enska úrvalsdeildarfélagið West Ham til átján mánaða. Dagný lék með Selfossi á síðustu leiktíð en þar á undan lék hún með Portland Thorns í Bandaríkjunum.
Þá hefur hún einnig leikið með Bayern München í Þýskalandi, Val og KFR/Ægi og unnið bæði þýska og bandaríska meistaratitilinn með Portland og Bayern, eftir að hafa orðið fjórum sinnum Íslandsmeistari með Val.
„Ég ætlaði ekki að fara út í janúar. Ég skipti um umboðsmann í desember og ég ætlaði alltaf aftur út en ég ætlaði ekki aftur á markaðinn fyrr en í febrúar. Ég var samningslaus og meidd og hefði því alltaf getað farið í febrúar eða mars. Ég vildi fá mánaðarfyrirvara þar sem ég er með fjölskyldu, hús, vinnu og í skóla. Ég vildi loka ýmsum endum áður en ég myndi stökkva á tilboð,“ sagði Dagný og hélt áfram.
„Þjálfari West Ham var rekinn í desember og nýr maður, sem kannaðist við mig, var ráðinn. Fyrir tilviljun fór hann að tala um mig við umboðsmanninn minn. Aðdragandinn var snöggur eftir það og þetta var eitthvað sem ég gat eiginlega ekki sleppt. Ég var komin út innan við viku seinna,“ útskýrði Dagný, sem hefur skorað 29 mörk í 90 landsleikjum. Dagný sneri heim til Íslands frá Bandaríkjunum seint á árinu 2019 en stefndi ávallt á að fara aftur út í atvinnumennsku. Hún er mjög spennt fyrir því að spila í ensku úrvalsdeildinni, sem er ein sú sterkasta í heimi.
„Ég er búin að fá mjög mikið af fyrirspurnum eftir að ég flutti heim, eða síðan í nóvember 2019. Mig langaði alltaf að fara aftur út og mig langaði að vera úti þegar ég kom aftur heim, en við þurftum að finna leið til að láta það ganga. Mér finnst enska deildin ótrúlega spennandi. Ég hefði getað farið í toppliðin í öðrum deildum en ég vildi fara í ensku deildina á meðan ég gat það. Þetta er ein af eftirsóknarverðustu deildum í Evrópu og eftir að Bretar fóru úr Evrópusambandinu er enn erfiðara að komast inn í hana. Ég tímdi því ekki að bíða fram á sumar eða að vonast eftir að fá eitthvað annað. Þetta var óvænt tækifæri sem kom upp,“ sagði Dagný.
Hún hefur alla tíð verið stuðningsmaður West Ham og fór ung að klæðast West Ham-treyjum. Þá voru bakaðar afmæliskökur merktar félaginu fyrir Dagnýju. Félagaskiptin eru því ansi sérstök fyrir miðjumanninn.
„Amma gerði West Ham-afmælisköku þegar ég var 8, 9 og 10 ára. Þetta er of ótrúlegt til að vera satt og ég vissi ekki hvort ég ætti að hlæja eða grenja þegar þetta tilboð kom upp,“ sagði Dagný létt, en enginn hjá félaginu vissi að Dagný væri dyggur stuðningsmaður West Ham þegar viðræðurnar hófust. „Þau vissu það ekki fyrr en viðræðurnar voru komnar lengra. Ég ákvað að segja þeim það eftir nokkur símtöl,“ sagði hún og hló.
Eins og gefur að skilja eru stuðningsmenn West Ham hæstánægðir með að fá stuðningsmann til liðs við félagsins og hefur skapast jákvæð umræða um Dagnýju á samfélagsmiðlum West Ham. Hún hefur lítið getað skoðað slíkt, þar sem það hefur verið nóg að gera síðan hún lenti í London.
„Það er búið að vera svo mikið að gera að ég hef ekki komist í það að skoða neitt. Ég er ein á hóteli núna. Það tók mig 21 tíma að komast upp á hótel í London eftir að ég vaknaði heima. Í gær fór ég í undirskrift, myndatökur og læknisskoðun og í dag var fyrsti dagurinn með liðinu. Það er búið að vera of mikið að gera til að skoða skilaboðin, en ég mun gera það. Þetta er sérstakt því það eru tvær aðrar stelpur í liðinu sem halda með West Ham. Það er ekki algengt að enda hjá fyrsta liðinu sem þú heldur með,“ sagði Dagný, en hvers vegna West Ham?
„Tómas besti vinur minn og Steindór pabbi hans halda með West Ham og eru með þeim hörðustu á Íslandi. Ég var úti í fótbolta með þeim þegar ég var fimm ára. Við Tómas vorum mikið saman og ég var í fótboltanum með strákunum. Ég fór strax að halda með West Ham, liggur við áður en ég vissi hvað fótbolti væri, og ég hef gert alla tíð síðan.“
West Ham hefur átt erfitt uppdráttar á leiktíðinni og er liðið með sjö stig eftir tíu leiki, aðeins þremur stigum fyrir ofan fallsæti. Þrátt fyrir það er Dagný spennt fyrir verkefninu og spennt að vinna með Olli Harder sem tók við liðinu í desember. „Ég kem inn í þetta tæp en vonandi næ ég inn einhverjum mínútum sem fyrst. Þjálfarinn er að koma ferskur inn í þetta núna eftir að hinn þjálfarinn hafði verið í þessu í þrjú ár. Mér líst ótrúlega vel á þetta hjá þjálfaranum sem er núna og ég er mjög spennt fyrir þessu.“
Dagný fór frá Portland í Bandaríkjunum í nóvember 2019. Hún segir það henta lítilli fjölskyldu sinni mun betur að vera á Englandi en í Bandaríkjunum, en hún býr með eiginmanni sínum og ungum syni. Hún segir betri samning hjá West Ham ekki vera aðalatriðið.
„Þetta gengur betur upp en Portland aðallega út af staðsetningunni og vegna fjölskyldunnar. Ég er á betri samning hérna, en það skiptir alls ekki öllu. Þegar ég fór í landsliðsverkefni þegar ég var hjá Portland þá voru maðurinn minn og strákurinn fastir í Portland. Það kostaði 150-180 þúsund krónur að fara fram og til baka og átta tíma flug. Þeir voru alls ekki að skjótast heim. Þegar við erum hér getur maðurinn minn skotist heim og unnið í einhvern tíma, allt verður einfaldara.
Þetta hefði gengið fjárhagslega í Bandaríkjunum en ég var ekki tilbúin að fara aftur þangað því ef ég fór t.d. í útileiki á Austurströndinni var ég oft tíu daga þar. Þegar ég tók saman öll landsliðsverkefnin og alla útileiki með Portland þá var ég kannski fjóra af tólf mánuðum í burtu frá syni mínum. Ég var ekki tilbúin að gera það og hann mátti ekki koma með mér eftir að hann varð eins árs. Mér finnst ótrúlega gaman í fótbolta en mér finnst skemmtilegra að vera með syni mínum. Hér á Englandi er lengsti útileikurinn í fimm tíma akstursfjarlægð. Það er eiginlega ekki hægt að bera þetta saman. Þetta er miklu auðveldra,“ sagði hún.
Dagný, sem hefur búið á Selfossi eftir að hún sneri heim, viðurkennir að hafa forðast höfuðborgarsvæðið vegna kórónuveirunnar. Nú er hún hins vegar komin til Englands þar sem veiran hefur verið afar skæð, en fáar þjóðir hafa farið eins illa úr faraldrinum.
„Ég bý á Selfossi og ég get örugglega talið á puttunum á mér hversu oft ég hef komið til Reykjavíkur síðan Covid byrjaði. Ég er búin að reyna allt hvað ég get að fara ekki á höfuðborgarsvæðið. Það er því svolítið súrt að ég vilji ekki fara til Reykjavíkur en er svo flutt til London,“ viðurkenndi hún og hélt áfram. „Það er Covid-testað hérna og svo hugsa ég vel um að passa mig. Það óþægilegasta var á leiðinni hingað þar sem ég sat t.d. ein í flugvél sem var alveg pökkuð. Þá leið mér ekki vel. Ég upplifi sennilega ekki lífið í London fyrr en eftir sumarfríið,“ sagði Dagný Brynjarsdóttir.