Emil Pálsson, knattspyrnumaður frá Ísafirði, gekk á dögunum í raðir Sarpsborg frá Sandefjord eins og frá var greint hér í blaðinu.
„Ég er mjög sáttur. Þetta er klárlega skref upp á við þar sem Sarpsborg er stærra félag en Sandefjord. Möguleikarnir á því að gera góða hluti í deildinni eru meiri að mér finnst,“ sagði Emil þegar Morgunblaðið hafði samband við hann. Samningur hans við Sandefjord var útrunninn og Emil segist hafa fengið nokkrar fyrirspurnir áður en hann tók ákvörðun.
„Ég fékk tvö eða þrjú önnur tilboð en ég ætla ekki að fara út í hvaðan þau komu. Einnig virtist vera áhugi hér og þar. Þegar ég skoðaði það sem ég hafði fengið í hendurnar fannst mér Sarpsborg líta best út. Ég þekki bæði Íslendinga og Norðmenn sem spilað hafa með liðinu og þeir tala allir vel um félagið.
Ég hef verið hérna í tíu daga og fyrstu kynni af félaginu eru mjög jákvæð. Aðstæðurnar eru góðar og margir góðir leikmenn í hópnum. Auk þess er metnaðurinn mikill. Liðið var í riðlakeppni Evrópudeildarinnar fyrir þremur árum en hefur ekki átt frábær tímabil síðustu tvö ár. Stefnan er sett á að rífa þetta aftur í gang á næsta tímabili og vonandi get ég spilað mikið og tekið þátt í því,“ sagði Emil.
Viðtalið í heild er í Morgunblaðinu í dag