Landsliðskona skiptir um félag í Bandaríkjunum

Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir er komin til Orlando.
Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir er komin til Orlando. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Landsliðskonan Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir er komin til bandaríska knattspyrnufélagsins Orlando Pride frá Kansas City en félögin skiptu á leikmönnum í dag. Besti árangur Orlando í bandarísku atvinnumannadeildinni er þriðja sætið árið 2017. 

Gunnhildur kemur til Orlando í staðinn fyrir valrétt í annarri umferð nýliðavalsins. Gunnhildur kom fyrst í bandaríska fótboltann árið 2018 og var í lykilhlutverki hjá Utah Royals í tvö ár. Hún lék með Val seinni hluta síðasta tímabils að láni frá Utah. 

Íslenska landsliðskonan verður ávallt í sögubókum Utah Royals þar sem hún skoraði fyrsta mark félagsins í deildarkeppni, en Utah kom fyrst inn í deildina sama tímabil og Gunnhildur gekk í raðir þess. Royals var hins vegar lagt niður í lok síðasta árs og Kansas fékk öll réttindi þess. 

Ásamt því að leika með Utah og Val hefur Gunnhildur einnig leikið með Adelaide United í Ástralíu, Vålerenga, Stabæk, Grand Bodø og Arna-Bjørnar í Noregi og Stjörnunni. Hún hefur leikið 76 A-landsleiki og skorað í þeim 10 mörk. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert