Bayern München er áfram með sjö stiga forskot á toppi þýsku 1. deildarinnar í fótbolta eftir 4:1-sigur á Hoffenheim á heimavelli í dag.
Jérome Boateng og Thomas Müller komu Bayern í 2:0 í fyrri hálfleik áður en Andrej Kramaric minnkaði muninn á 44. mínútu og var staðan í leikhléi 2:1. Robert Lewandowski og Serge Gnabry bættu við mörkum í seinni hálfleik og gulltryggðu sigur Evrópumeistaranna.
Bayern er með 45 stig, sjö stigum meira en Leipzig sem er í öðru sæti. Leipzig hafði betur gegn Leverkusen á heimavelli í Evrópubaráttuslag, 1:0. Christopher Nkunku skoraði sigurmarkið á 51. mínútu.
Frankfurt er óvænt komið í þriðja sætið eftir 3:1-sigur á Hertha Berlín. André Silva skoraði tvö mörk fyrir Frankfurt og Martin Hinteregger komst einnig á blað. Krzysztof Piatek skoraði mark Hertha Berlín.
Borussia Dortmund er með 32 stig, líkt og Leverkusen, Wolfsburg og Borussia Mönchengladbach eftir 3:1-sigur á Augsburg á heimavelli. Alfreð Finnbogason lék ekki með Augsburg vegna meiðsla.
Thomas Delaney og Jadon Sancho komu Dortmund í 2:1 eftir að André Hahn hafði komið Augsburg yfir snemma leiks. Sigurinn var svo gulltryggður á 75. mínútu þegar Felix Uduokhai skoraði sjálfsmark.
Staða efstu liða: