Engin málamiðlun virðist í augsýn í samningsviðræðum spænska stórveldisins Real Madríd við fyrirliða liðsins til síðustu ára Sergio Ramos en varnarmaðurinn er aðeins samningsbundinn félaginu út tímabilið.
Ramos er orðinn 34 ára gamall en hann gekk til liðs við Real frá uppeldisfélagi sínu Sevilla árið 2005 og hefur verið lykilmaður í spænsku höfuðborginni síðan. Hann hefur verið fyrirliði Real frá 2015 og á að baki næstum 700 leiki fyrir liðið og skorað 100 mörk. Nú virðist hins vegar eins og hann sé á förum.
Real bauð honum nýjan samningi fyrr á árinu sem leikmaðurinn hafnaði en forráðamenn félagsins vilja að hann lækki laun sín um tíu prósent vegna þeirra áhrifa sem kórónuveirufaraldurinn hefur haft á fjárhag félagsins. Samkvæmt spænska miðlinum Marca, sem stundum er talinn málgagn félagsins, hafa viðræður milli Real og Ramos runnið út í sandinn. Hann er sagður áhugasamur um að vera áfram hjá félaginu en ekki tilbúinn að taka á sig launalækkun.