Alan Ruschel, fyrirliði brasilíska knattspyrnufélagsins Chapecoense, lyfti bikarnum þegar liðið tryggði sér sigur í brasilísku B-deildinni á dramatískan hátt í gær. Ruschel er einn þeirra sex sem lifðu af hræðilegt flugslys fyrir rúmum fjórum árum þegar 71 einstaklingur, þar af 19 leikmenn Chapecoense, létu lífið.
Chapecoense komst í heimsfréttirnar í nóvember árið 2016 þegar flugvél liðsins hrapaði þegar liðið var á leið til Kólumbía að keppa í Suður-Ameríku-bikarnum. Sex af 77 farþegum lifðu flugslysið af, þar af þrír leikmenn Chapecoense.
19 leikmenn liðsins létust og tóku við erfið ár hjá liðinu. Þegar harmleikurinn átti sér stað var Chapecoense á fínu róli í A-deild Brasilíu. Þrátt fyrir að önnur lið í deildinni væru boðin og búin til þess að bjóða Chapecoense leikmenn og liðið átti fljótlega aftur í lið tóku við fallbaráttuár, sem enduðu með falli í B-deild árið 2019.
Á dögunum varð það ljóst að Chapecoense væri búið að tryggja sér sæti í A-deildinni en enn átti eftir að skera úr um sigurvegara deildarinnar.
Undir lok leiks var Chapecoense 2:1 yfir gegn Confianca í lokaumferðinni. Liðið vantaði eitt mark til þess að komast upp fyrir América Mineiro, sem var búið að vinna sinn leik fyrr um daginn og var með fleiri skoruð mörk.
Á 6. mínútu fékk Chapecoense vítaspyrnu. Anselmo Ramón steig á punktinn og skoraði með svokallaðri „Panenka“ vítaspyrnu, tryggði liðinu 3:1 sigur og þar með einu marki betra en América.
Titillinn því í höfn og var það afar tilfinningarík stund þegar Ruschel, sem meiddist illa á baki í flugslysinu en sneri aftur á völlinn nokkrum mánuðum síðar, lyfti bikarnum í leikslok.