Messi skoraði 650. markið

Mörkin hjá Lionel Messi eru nú orðin 650.
Mörkin hjá Lionel Messi eru nú orðin 650. AFP

Mörkin hjá Lionel Messi fyrir Barcelona eru orðin 650 en hann skoraði úr glæsilegri aukaspyrnu í 2:1-sigri liðsins á Athletic Bilbao í spænsku efstu deildinni í knattspyrnu í kvöld.

Gestirnir voru með fimm leikmenn í varnarvegg og einn liggjandi þar fyrir aftan en argentínska knattspyrnustjarnan sneri boltann glæsilega upp í bláhornið til að koma Barcelona í forystu. Hann hefur nú skorað 49 mörk beint úr aukaspyrnu fyrir félagið.

Jordi Alba varð fyrir því óláni að skora sjálfsmark og jafna þar með metin snemma í síðari hálfleik en Antoine Griezmann tryggði Börsungum sigur sem dugði þeim til að fara upp fyrir erkifjendur sína í Real Madríd og upp í annað sætið. Atlético Madríd er á toppnum með 50 stig og á þar að auki leik til góða á bæði Barcelona og Real sem eru með 40 stig.

Messi er orðinn 33 ára gamall en hann hefur spilað 755 leiki fyrir Barcelona og skoraði í þeim 650 mörk í öllum keppnum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert