Mörkin hjá Lionel Messi fyrir Barcelona eru orðin 650 en hann skoraði úr glæsilegri aukaspyrnu í 2:1-sigri liðsins á Athletic Bilbao í spænsku efstu deildinni í knattspyrnu í kvöld.
Gestirnir voru með fimm leikmenn í varnarvegg og einn liggjandi þar fyrir aftan en argentínska knattspyrnustjarnan sneri boltann glæsilega upp í bláhornið til að koma Barcelona í forystu. Hann hefur nú skorað 49 mörk beint úr aukaspyrnu fyrir félagið.
Jordi Alba varð fyrir því óláni að skora sjálfsmark og jafna þar með metin snemma í síðari hálfleik en Antoine Griezmann tryggði Börsungum sigur sem dugði þeim til að fara upp fyrir erkifjendur sína í Real Madríd og upp í annað sætið. Atlético Madríd er á toppnum með 50 stig og á þar að auki leik til góða á bæði Barcelona og Real sem eru með 40 stig.
Messi er orðinn 33 ára gamall en hann hefur spilað 755 leiki fyrir Barcelona og skoraði í þeim 650 mörk í öllum keppnum.