Atlético Madríd jók forystu sína á toppi spænsku 1. deildarinnar í knattspyrnu með 4:2-sigri á Cadiz á útivelli í dag. Úrúgvæinn Luis Suárez skoraði tvennu í leiknum.
Suárez kom gestunum í forystu á 28. mínútu en Álvaro Negredo jafnaði metin sjö mínútum síðar. Saúl Niguez endurheimti forystu Atlético rétt fyrir hálfleik og Suárez kom þeim í 3:1 með marki úr vítaspyrnu á 50. mínútu áður en Negredo skoraði annað mark sitt tuttugu mínútum fyrir leikslok. Miðjumaðurinn Koke innsiglaði svo sigur gestanna undir lok leiksins og eru þeir nú tíu stígum fyrir ofan nágranna sína og erkifjendur í Real Madríd ásamt því að eiga leik til góða.
Atlético er með 50 stig á toppnum, Real 40 og næst kemur Sevilla með 39 stig. Barcelona er í fjórða sætinu með 37 stig og á einnig leik til góða.