Hélt að Kjartan ætlaði heim af persónulegum ástæðum

Kjartan Henry sneri aftur til Horsens í október á síðasta …
Kjartan Henry sneri aftur til Horsens í október á síðasta ári. Ljósmynd/Horsens

Forráðamenn danska knattspyrnufélagsins Horsens ráku upp stór augu í morgun þegar danska B-deildarfélagið Esbjerg tilkynnti að það hefði samið við Kjartan Henry Finnbogason.

Kjartan rifti samningi sínum við úrvalsdeildarlið Horsens um helgina en hann tjáði forráðamönnum félagsins að hann væri á heimleið til Íslands.

„Ég sá þetta ekki fyrir,“ sagði Niels Erik Søndergaard í samtali við Ekstrabladet um vistaskipti Kjartans.

„Ég sat á móti Kjartani þegar hann tjáði mér að hann vildi komast aftur heim til Íslands af persónulegum, fjölskylduástæðum. 

Hann sagðist ekki hafa neinn áhuga á því að spila áfram í Danmörku og það kom mér þess vegna gríðarlega á óvart að sjá hann skrifa undir hjá Esbjerg.

Ég mun hins vegar ekki erfa þetta neitt enda eru hlutirnir fljótir að breytast í fótboltanum og það getur ýmislegt gerst á einum degi.“

Þá var Søndergaard spurður hvort hann teldi að Kjartan hefði logið að honum.

„Ég veit það ekki og það er bara spurning sem Kjartan þarf sjálfur að svara. Ég veit ekki hvað gerðist á milli hans og Esbjerg,“ bætti Søndergaard við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert