Mikill titringur er í Barcelona eftir að blaðið Mundo Deportivo birti í gær upplýsingar og tölur úr samningi FC Barcelona við Lionel Messi. FC Barcelona á í fjárhagserfiðleikum og samkvæmt gögnunum er Messi á himinháum launum.
Messi gerði nýjan samning við Barcelona árið 2017 og eins og frægt er orðið þá rennur hann út í sumar.
Grunnlaun Messi hjá FC Barcelona á samningstímanum eru um 38 milljarðar króna. Með alls kyns árangurstengdum bónusum þá hefði upphæðin getað farið upp í 86 milljarða.
Samkvæmt fréttaflutningi blaðsins hefur Messi fengið um 79 milljarða í vasann.
Þessar upphæðir eru væntanlega óþekktar í knattspyrnunni og eru til að mynda miklu hærri en laun körfuboltamannsins LeBron James hjá LA Lakers en tekjur James hækka reyndar mikið þegar samningar við samstarfsaðila eru teknir með. Til samanburðar má nefna að sá sem stendur uppi sem sigurvegari á PGA-mótaröðinni í golfi fær rúma 2 milljarða fyrir það afrek.
Spænskir fjölmiðlar segja frá því að lögfræðingar Messi ætli að fara í mál við Mundo Deportivo fyrir að birta upplýsingarnar. Í fréttatilkynningu frá FC Barcelona kemur einnig fram að félagið ætli í mál við dagblaðið. Samningar sem félagið geri við leikmenn séu trúnaðarmál. Félagið segist ekkert hafa haft með umfjöllunina að gera og kannast ekki við að upplýsingarnar hafi lekið frá félaginu til blaðsins.
Athyglisvert er að FC Barcelona hafnar því ekki að launatölurnar sem blaðið birti séu réttar.