Náðu samningum og Björn fer til Molde

Björn Bergmann Sigurðarson.
Björn Bergmann Sigurðarson. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Norska knattspyrnufélagið Molde tilkynnti nú síðdegis að gengið hefði verið frá kaupum á Birni Bergmann Sigurðarsyni frá Lilleström og samið við hann til tveggja ára.

Eins og fram kom á dögunum stóðu félögin í stappi eftir að Björn hafði skýrt frá því að hann væri á leið til Molde og forráðamenn félagsins staðfestu við norska fjölmiðla að í ljós hefði komið að það myndi kosta þá meira að fá Íslendinginn aftur í sínar raðir en útlit hafi verið fyrir til að byrja með.

Þetta er í þriðja sinn sem Björn kemur til Molde. Hann var lánaður þangað frá Wolves árið 2014 og sneri svo aftur til félagsins árið 2016 þegar hann var laus frá enska félaginu og lék þar í hálft annað ár með mjög góðum árangri. Hann lék síðan með Rostov í Rússlandi en gekk til liðs við Lilleström, sem hann hafði áður leikið með, í ágúst á síðasta ári og hjálpaði liðinu að endurheimta sæti sitt í úrvalsdeildinni.

Molde varð norskur meistari 2019 en varð í öðru sæti á eftir Bodö/Glimt á síðasta tímabili.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert