Spila einn Evrópuleik í stað tveggja

Ingibjörg Sigurðardóttir og samherjar í meistaraliði Vålerenga búa sig undir …
Ingibjörg Sigurðardóttir og samherjar í meistaraliði Vålerenga búa sig undir leik í Danmörku. Ljósmynd/Vålerenga

Ingibjörg Sigurðardóttir og samherjar í liði Noregsmeistara Vålerenga geta ekki spilað á heimavelli gegn Brøndby í 32ja liða úrslitum Meistaradeildar kvenna í fótbolta.

Leikjum liðanna sem áttu að fara fram í desember var frestað vegna ástandsins í útbreiðslu kórónuveirunnar í Ósló og Kaupmannahöfn. Þeir eiga að fara fram í þessum mánuði og stefnan var að spila á báðum heimavöllum eins og venjan er en nú hefur verið hætt við það.

Í stað þess verður einn leikur og hann verður á heimavelli Brøndby á fimmtudaginn í næstu viku, 11. febrúar.

Eli Landsem, íþróttastjóri Vålerenga, staðfestir þetta og segir að eftir að margar leiðir hafi verið kannaðar sé þetta eini raunhæfi möguleikinn.

„Í fullkomnum heimi hefðu verið spilaðir leikir heima og heiman en það var hreinlega ekki hægt. Nú verðum við að búa okkur undir þennan eina leik í Danmörku. Það kom á daginn að það væri ekki raunhæft að spila fyrri leikinn í Noregi vegna útbreiðslu veirunnar,“ segir Landsem á vef norska félagsins en m.a. stóð til að reyna að spila leikina á Kýpur.

Amanda Andradóttir er komin til liðs við Vålerenga frá Nordsjælland í Danmörku en samkvæmt reglum UEFA verður hún ekki lögleg með liðinu í Meistaradeildinni fyrr en 25. febrúar. Vålerenga reyndi að fá undanþágu fyrir hana og þrjá aðra nýja leikmenn, þar sem nokkrir leikmenn fóru frá félaginu í staðinn og hópurinn er því þunnskipaður sem stendur.

„Sem betur fer eigum við sextán góða leikmenn sem eru tilbúnir í þennan leik og gætu komið okkur áfram í keppninni,“ segir Landsem.

Dregið verður til sextán liða úrslitanna 16. febrúar þannig að það liggur ekki fyrir enn þá við hverja sigurvegararnir í leiknum spila. Ljóst er þó að það verður eitt af átta bestu liðunum því Vålerenga eða Brøndby verður í neðri styrkleikaflokki í drættinum. Í efri flokknum eru Lyon, Wolfsburg, Barcelona, París SG, Bayern München, Manchester City, Chelsea og Rosengård. Komist Ingibjörg áfram gætu hún og Amanda því mætt Söru Björk Gunnarsdóttur (Lyon), Glódísi Perlu Viggósdóttur (Rosengård) eða Karólínu Leu Vilhjálmsdóttur (Bayern) í sextán liða úrslitunum í marsmánuði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert