Zlatan í tíu leikja bann?

Zlatan Ibrahimovic og Romelu Lukaku saman á dögunum.
Zlatan Ibrahimovic og Romelu Lukaku saman á dögunum. AFP

Zlatan Ibrahimovic, framherji ítalska knattspyrnufélagsins AC Milan, gæti verið á leið í tíu leikja bann fyrir rasísk ummæli í garð Romelus Lukakus, framherja Inter Mílanó.

Það er 101GreatGoals sem greinir frá þessu en bæði Zlatan og Lukaku voru úrskurðaðir í eins leiks bann á dögunum eftir að þeim lenti saman í leik Inter og AC Milan í átta liða úrslitum ítölsku bikarkeppninnar á dögunum.

Zlatan kallaði Lukaku meðal annars múlasna og þá er hann sagður hafa látið óviðeigandi ummæli falla í garð móður Lukakus.

Þá sagði hann leikmanninum að fara og stunda vúdúgaldra en ítalska knattspyrnusambandið mun skoða atvikið betur í vikunni.

Verði Zlatan fundinn sekur um kynþáttafordóma í garð Lukakus gæti hann fengið tíu leikja bann en Zlatan sendi frá sér yfirlýsingu skömmu eftir atvikið þar sem hann þvertók fyrir að hafa verið með fordóma í garð Lukakus.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert