Knattspyrnukonan Lára Kristín Pedersen er gengin til liðs við ítalska A-deildarfélagið Napoli.
KSÍ staðfesti félagaskipti Láru til Ítalíu í dag en hún mun leika með ítalska liðinu út tímabilið.
Guðný Árnadóttir gekk til liðs við félagið í byrjun janúar á láni frá AC Milan en Napoli er í ellefta og næst neðsta sæti deildainnar með 4 stig, 4 stigum frá öruggu sæti.
Miðjukonan, sem er 26 ára gömul, er uppalin hjá Aftureldingu í Mosfellsbæ en hún lék með KR í úrvalsdeildinni á síðustu leiktíð.
Lára á að baki 167 leiki í efstu deild með Aftureldingu, Stjörnunni, Þór/KA og KR þar sem hún hefur skorað fimmtán mörk. Þá á hún að baki 2 A-landsleiki fyrir Ísland.