Knattspyrnumaðurinn Aron Bjarnason, sem lék með Valsmönnum síðasta sumar, er á leið frá ungverska félaginu Újpest til sænska úrvalsdeildarfélagsins Sirius.
Þetta kemur fram á sænska netmiðlinum FotbollDirekt í dag en þar segir að Sirius, sem er frá háskólabænum Uppsala, skammt vestur af Stokkhólmi, sé langt komið með að semja við Újpest um kaup á Aroni.
Sirius muni greiða um það bil eina milljón sænskra króna fyrir Aron sem verði fljótlega kynntur formlega til leiks hjá félaginu.
Aron var í láni hjá Val á síðasta tímabili eftir að hafa fengið takmörkuð tækifæri hjá Újpest síðasta vetur. Hann kom aftur til ungverska liðsins um áramótin en hefur verið ónotaður varamaður í tveimur fyrstu leikjum þess eftir vetrarfríið.
Aron var í stóru hlutverki hjá Valsmönnum á síðasta tímabili og varð Íslandsmeistari með þeim. Hann var næstmarkahæsti maður þeirra í úrvalsdeildinni með sjö mörk í 18 leikjum. Aron er 25 ára gamall og lék með Breiðabliki áður en hann fór til Ungverjalands en þar áður með ÍBV, Fram og Þrótti í Reykjavík. Hann á að baki 131 leik í íslensku úrvalsdeildinni þar sem hann hefur skorað 31 mark.
Sirius hefur lengst af leikið í B- og C-deildunum í Svíþjóð en árið 2016 vann liðið B-deildina og hefur síðan náð að festa sig í sessi á fjórum tímabilum í úrvalsdeildinni. Þar endaði liðið í tíunda sæti af sextán liðum á síðasta ári.