Ítalska B-deildarfélagið Brescia er án knattspyrnustjóra þessa dagana en Davide Dionigi hefur verið rekinn eftir skamman tíma í starfi.
Birkir Bjarnason og Hólmbert Aron Friðjónsson eru samningsbundir ítalska félaginu en Dionigi er fjórði þjálfarinn sem lætur af störfum hjá Brescia á tímabilinu.
Fyrir höfðu þeir Luigi Delneri og Diego López báðir verið reknir og Daniele Gastaldello tók tímabundið við liðinu þegar López var rekinn.
Massimo Cellino, forseti félagsins, hefur litla þolinmæði gagnvart knattspyrnustjórum sínum en hann átti eitt sinn enska knattspyrnufélagið Leeds og rak þar sex knattspyrnustjóra á þremur árum.
Brescia féll úr efstu deild á síðustu leiktíð en liðinu hefur ekki gengið vel í B-deildinni á tímabilinu og er í þrettánda sæti deildarinnar með 21 stig.