Gerard Piqué einn reyndasti leikmaður knattspyrnuliðs Barcelona virðist hafa komið sér í vandræði með niðrandi ummælum um þá sem sinna dómgæslu í spænsku knattspyrnunni.
Piqué lét að því liggja í viðtali að dómarar séu Real Madríd hliðhollir í leikjum. Vísaði hann reyndar í ónafngreindan dómara og hafði eftir honum að 85% þeirra sem dæma knattspyrnuleiki á Spáni dragi taum Real Madríd.
Ummælin voru höfð eftir Piqué í Post United og tekin upp í Marca. Piqué segist þó í viðtalinu bera virðingu fyrir dómurum. „Ég ber virðingu fyrir dómurum og þeirri fagmennsku sem hjá þeim ríkir og ég veit að þeir gera sitt besta. En hvað gerist þegar skera þarf úr um vafaatriði?“
Málið er litið alvarlegum augum af spænska knattspyrnusambandinu og er til skoðunar. Í háttvísisreglum sem aganefnd ber að líta til segir að refsivert sé að draga heiðarleika dómara í efa í opinberri umræðu. Samkvæmt spænskum fjölmiðlum gæti Piqué fengið leikbann frá fjórum leikjum og upp í tólf fari svo að aganefndin úrskurði hann í bann á annað borð.