Real Madrid þurfti að hafa mikið fyrir 2:1-sigri á botnliði Huesca á útivelli í spænsku 1. deildinni í fótbolta í dag.
Javi Galán kom Huesca afar óvænt yfir á 48. mínútu en sjö mínútum síðar skoraði franski varnarmaðurinn Raphael Varanne jöfnunarmarkið. Hann var svo aftur á ferðinni á 84. mínútu með sigurmark.
Real er í öðru sæti með 43 stig, sjö stigum á eftir grönnunum í Atlético Madrid sem eiga tvo leiki til góða. Barcelona er með 40 stig í þriðja sæti en Börsungar eiga enn leik til góða á Real.