Barcelona lagði Real Betis að velli, 3:2, í kaflaskiptum leik í spænsku 1. deildinni í knattspyrnu í kvöld. Sigurmark Barcelona kom seint í leiknum.
Börsungar voru marki undir í hálfleik eftir að Borja Iglesias hafði komið Betis í forystu á 38. mínútu.
Eftir tæplega klukkutíma leik jafnaði argentínski snillingurinn Lionel Messi metin og á 68. mínútu komst Barcelona í 2:1 þegar Víctor Ruiz varð fyrir því óláni að skora sjálfsmark.
Ruiz lét það þó ekki mikið á sig fá þar sem hann jafnaði metin sjö mínútum síðar með skalla eftir hornspyrnu.
Á 87. mínútu kom svo sigurmarkið. Það gerði Portúgalinn ungi Trincao eftir sendingu frá Messi.
Barcelona endurheimti þar með annað sætið í spænsku 1. deildinni. Betis er áfram í 7. sæti deildarinnar.