Sverrir bjargvættur PAOK - jafnaði eigið met

Sverrir Ingi Ingason, til vinstri, í leik með PAOK.
Sverrir Ingi Ingason, til vinstri, í leik með PAOK. AFP

Sverrir Ingi Ingason landsliðsmiðvörður í knattspyrnu kom liði sínu PAOK frá Þessaloníku til bjargar gegn Smyrnis í grísku úrvalsdeildinni í dag.

PAOK var með 1:0 forystu í hálfleik en lenti 1:2 undir í seinni hálfleiknum. Sverrir náði að jafna metin í 2:2 á 88. mínútu og kom í veg fyrir mjög óvæntan ósigur liðsins sem virtist í uppsiglingu.

Stigið lyfti PAOK tímabundið upp í annað sætið en ljóst er að liðið dettur niður í það þriðja síðar í dag þegar AEK og Aris eigast við. Olympiacos er með yfirburðaforystu í deildinni með 54 stsig en PAOK og AEK eru með 40 stig og Aris 39 í öðru til fjórða sæti deildarinnar, og þá er Panathinaikos með 38 stig í fimmta sætinu.

Þetta er fjórða mark Sverris í deildinni í vetur, í 18 leikjum, og hann er þar með búinn að jafna sitt besta tímabil á ferlinum í markaskorun. Það var á síðasta tímabili þegar hann skoraði fjögur mörk í 28 leikjum PAOK í deildinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert