Verður einn sá besti í sænsku deildinni

Jón Guðni Fjóluson í búningi Krasnodar þar sem hann lék …
Jón Guðni Fjóluson í búningi Krasnodar þar sem hann lék í tvö ár. Ljósmynd/Krasnodar

Kristoffer Olsson, landsliðsmaður Svía í knattspyrnu og leikmaður Krasnodar í Rússlandi, segir að sænska félagið Hammarby hafi heldur betur fengið liðsauka þegar það samdi við varnarmanninn Jón Guðna Fjóluson til þriggja ára fyrir skömmu.

Olsson og Jón Guðni léku saman með Krasnodar og Svíinn, sem er 25 ára gamall miðjumaður, kveðst viss um að sinn gamli félagi eigi eftir að setja mark sitt á sænsku úrvalsdeildina í ár.

„Þegar hann er kominn í form og farinn að spila reglulega er alveg á hreinu að Jón Guðni verður einn besti miðvörður deildarinnar. Hann er í miklu uppáhaldi hjá mér, bæði sem leikmaður og ekki síður sem manneskja. Hann átti erfitt uppdráttar hjá Krasnodar, fékk lítið að spila og svo var fjölskyldan hans á Íslandi. Ég held að hann eigi eftir að falla vel inn hjá Hammarby, hann er mjög vel spilandi, er góður með boltann, harður af sér sem varnarmaður og frábær skallamaður,“ segir Olsson í viðtali við sænska netmiðilinn FotbollDirekt.

Jón Guðni, sem er 31 árs, hefur leikið sem atvinnumaður í tíu ár, með Beerschot í Belgíu, Sundsvall og Norrköping í Svíþjóð, Krasnodar og síðustu mánuði síðasta árs með Brann í Noregi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert