Sænski knattspyrnumaðurinn Zlatan Ibrahimovic skoraði fyrir stundu sitt 500. mark í mótsleik með félagsliði á ferlinum.
Hinn 39 ára gamli Zlatan kom AC Milan yfir gegn Crotone, 1:0, á 31. mínútu í leik í ítölsku A-deildinni sem hófst klukkan 14. Þetta er hans þrettánda mark í ellefu leikjum í deildinni á þessu tímabili og 500. markið í 825 mótsleikjum á ferlinum.
Þar af hefur Zlatan skorað 26 mörk fyrir AC Milan, 23 þeirra í A-deildinni, eftir að hann sneri aftur til félagsins í ársbyrjun 2020.
Uppfært kl. 15.55:
Zlatan Ibrahimovic skoraði sitt 501. mark á ferlinum á 64. mínútu og kom AC Milan í 2:0 áður en Ante Rebic bætti við tveimur mörkum. Lokatölur urðu því 4:0 og AC Milan er með tveggja stiga forystu á granna sína í Inter á toppi deildarinnar.