Axel til lettnesku meistaranna

Axel Óskar Andrésson fagnar marki í leik með 21-árs landsliði …
Axel Óskar Andrésson fagnar marki í leik með 21-árs landsliði Íslands. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Lettneska meistaraliðið Riga tilkynnti nú undir kvöld að það hefði samið við íslenska varnarmanninn Axel Óskar Andrésson sem kemur til félagsins frá Viking í Noregi.

Axel er nýorðinn 23 ára gamall og fór sextán ára frá Aftureldingu til enska félagsins Reading. Þar lék hann með unglinga- og varaliðum og var lánaður til neðrideildaliðanna Bath og Torquay.

Hann gekk síðan til liðs við Viking í Noregi haustið 2018 og hjálpaði liðinu að komast upp úr B-deildinni en missti síðan heilt ár úr keppni þegar hann slasaðist illa á hné í fyrstu umferð norsku úrvalsdeildarinnar 2019. Axel kom hægt og rólega inn í lið Viking á ný á síðasta tímabili, spilaði ekki mikið í fyrri umferðinni en nær alla leikina í seinni umferðinni og lék í heild 17 af 30 leikjum liðsins í úrvalsdeildinni.

Axel hefur leikið 18 leiki með 21-árs landsliði Íslands og gæti spilað með því í lokakeppni EM í Ungverjalandi í mars. Þá lék hann 28 leiki með yngri landsliðum Íslands og hefur spilað tvo A-landsleiki.


Riga var stofnað árið 2014 við samruna tveggja liða í höfuðborg Lettlands, Dinamo og Caramba. Riga vann sér sæti í efstu deild í fyrsta sinn fyrir tímabilið 2016 og varð lettneskur meistari þriðja árið í röð 2020 eftir mikið einvígi við nágranna sína Rigas FS, og vann 23 af 27 leikjum sínum í deildinni.

Liðið komst í þriðju umferð Evrópudeildarinnar í haust en tapaði þar 0:1 fyrir Celtic frá Skotlandi. Ári áður komst liðið í fjórðu umferð, umspilið fyrir riðlakeppnina, en féll þá út gegn FC København frá Danmörku, 2:3 samanlagt.

Keppnistímabilið í Lettlandi hefst í mars og lýkur í nóvember. Axel verður fyrsti íslenski knattspyrnumaðurinn til að spila í úrvalsdeildinni þar í landi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert