Barcelona sýndi mér vanvirðingu

Luis Suárez er markahæsti leikmaður spænsku 1. deildarinnar á tímabilinu.
Luis Suárez er markahæsti leikmaður spænsku 1. deildarinnar á tímabilinu. AFP

Úrúgvæski knattspyrnumaðurinn Luis Suárez er ósáttur með viðskilnað sinn við spænska íþróttafélagið Barcelona.

Suárez var seldur síðasta sumar til Atlético Madrid fyrir 5,5 milljónir punda en Ronald Koeman, sem þá var nýtekinn við stjórnartaumunum hjá Börsungum, hafði lítinn áhuga á því að nota framherjann.

Suárez, sem er 34 ára gamall, gekk til liðs við Barcelona frá Liverpool sumarið 2014 en hann er næstmarkahæsti leikmaður í sögu félagsins með 198 mörk. 

Framherjinn hefur slegið í gegn með Atlético Madrid á tímabilinu en hann er markahæsti leikmaður spænsku 1. deildarinnar með 14 mörk og þá er Atlético með 10 stiga forskot á toppi deildarinnar.

„Það var erfitt að kveðja Barcelona því félagið sýndi mér vanvirðingu,“ sagði Suárez í samtali við Onda Cero.

„Ég vildi hins vegar yfirgefa félagið, berandi höfuðið hátt, fyrir börnin mín því þetta var erfitt fyrir þau.

Þau eru á þeim aldri að þau finna fyrir öllum breytingum en ég tók þetta inn á mig á sínum tíma því það var illa staðið að viðskilnaðinum,“ bætti framherjinn við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert