Fyrstur Íslendinga til að leika með rúmensku liði

Rúnar Már Sigurjónsson í viðtali hjá fjölmiðladeild CFR Cluj í …
Rúnar Már Sigurjónsson í viðtali hjá fjölmiðladeild CFR Cluj í höfuðstöðvum félagsins í dag. Ljósmynd/CFR Cluj

Rúnar Már Sigurjónsson landsliðsmaður í knattspyrnu gekk í dag til liðs við rúmensku meistarana CFR Cluj og samdi við þá til tveggja ára.

Hann er þar með fyrsti Íslendingurinn til að semja við félag í Rúmeníu en CFR Cluj er frá Cluj-Napoca, fjórðu stærstu borg Rúmeníu.

Rúnar fékk sig lausan frá Astana í Kasakstan þar sem hann átti eitt ár eftir af samningi en félagið er í talsverðum fjárhagserfiðleikum af völdum kórónuveirunnar. Rúnar lék með Astana í hálft annað ár og varð meistari með liðinu árið 2019 eftir að hafa leikið með því seinni hluta þess tímabils.

Hann lék 15 af 20 leikjum Astana í A-deildinni í Kasakstan tímabilið 2020 og var markahæsti leikmaður liðsins með sex mörk en tímabilið var stytt mjög vegna kórónuveirufaraldursins.

Rúnar Már Sigurjónsson í leik Íslands og Ungverjalands í Búdapest …
Rúnar Már Sigurjónsson í leik Íslands og Ungverjalands í Búdapest í nóvember. Ljósmynd/Szilvia Micheller

Rúnar er þrítugur miðjumaður og spilaði fyrst 14 ára gamall með Tindastóli árið 2005 en lék síðan í þrjú ár með HK, þar af eitt tímabil í úrvalsdeildinni, árið 2008. Rúnar lék með Val frá 2010 til 2013 en hefur verið atvinnumaður síðan, með Sundsvall í Svíþjóð, Grasshoppers og St. Gallen í Sviss og nú síðast Astana í Kasakstan.

Hann hefur verið í íslenska landsliðinu undanfarin ár og á 30 A-landsleiki að baki, m.a. fimm af síðustu sex leikjum ársins 2020.

Rúnar hefur leikið 304 deildaleiki á ferlinum og skorað í þeim 60 mörk, þar af eru 172 leikir og 35 mörk í atvinnumennsku erlendis. Áður hafði Rúnar spilað og skorað í fjórum efstu deildum Íslandsmótsins, þar af leikið 82 úrvalsdeildarleiki með Val og HK og skorað í þeim 19 mörk.

Rúnar Már Sigurjónsson, til vinstri, í leik með Astana.
Rúnar Már Sigurjónsson, til vinstri, í leik með Astana. Ljósmynd/Astana

CFR Cluj vann rúmenska meistaratitilinn þriðja árið í röð á síðasta tímabili, 2019-20, en liðið endaði fimm stigum á undan næsta liði, Universitatea Craiova, eftir útisigur í hreinum úrslitaleik liðanna í lokaumferðinni. Liðið hefur þar með orðið sex sinnum meistari eftir að hafa unnið titilinn fyrst árið 2008.

Í framhaldi af því lék liðið í forkeppni Meistaradeildar Evrópu, féll þar út í 2. umferð eftir vítaspyrnukeppni gegn Dinamo Zagreb frá Króatíu, en sigraði síðan Djurgården frá Svíþjóð og KuPS frá Finnlandi og tryggði sér sæti í riðlakeppni Evrópudeildarinnar. Þar fékk CFR Cluj fimm stig í sex leikjum við Roma frá Ítalíu, Young Boys frá Sviss og CSKA Sofia frá Rúmeníu en endaði í þriðja sæti og komst ekki áfram.

Geta komist í toppsætið í kvöld

CFR Cluj er í öðru sæti rúmensku 1. deildarinnar, Liga 1, eins og efsta deildin heitir í landinu, einu stigi á eftir FCSB (áður Steaua Búkarest), en á leik til góða sem einmitt fer fram í kvöld, og getur því náð tveggja stiga forystu á keppinautana sem töpuðu sínum leik um helgina.

Rúnar gæti spilað sinn fyrsta leik eftir viku, mánudagskvöldið 15. febrúar, en CFR Cluj á þá heimaleik gegn Voluntari sem er næstneðst af sextán liðum í deildinni.

Liðið hefur verið fastagestur í Evrópumótunum á seinni árum. Liðið komst í 32 liða úrslit Evrópudeildarinnar 2019-20 en féll þar út gegn Sevilla á Spáni eftir tvo jafnteflisleiki. Liðið byrjaði einmitt tímabilið á því að slá Rúnar og félaga í Astana út í 1. umferð undankeppni Meistaradeildarinnar.

Þá komst liðið í riðlakeppni Meistaradeildarinnar tímabilin 2010-11 og 2012-13 og vann í seinna skiptið m.a. Manchester United óvænt, 1:0, á Old Trafford.

Fimm leikmenn CFR Cluj voru í rúmenska landsliðshópnum fyrir umspilsleikinn gegn Íslandi á Laugardalsvellinum í október 2020 þar sem Ísland sigraði 2:1.

Heimavöllur CFR Cluj ber nafn Constantin Radulescu, goðsagnar hjá félaginu sem lék með liðinu 1950-1956 og þjálfaði það síðan margoft á árunum 1957 til 1995. Leikvangurinn, sem var endurbyggður 2008 vegna þátttöku félagsins í Meistaradeild Evrópu, rúmar 23 þúsund áhorfendur og rúmenska landsliðið hefur leikið á honum í undankeppnum HM og EM.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert