Rúnar Már Sigurjónsson landsliðsmaður í knattspyrnu gekk í dag til liðs við rúmensku meistarana CFR Cluj og samdi við þá til tveggja ára.
Hann er þar með fyrsti Íslendingurinn til að semja við félag í Rúmeníu en CFR Cluj er frá Cluj-Napoca, fjórðu stærstu borg Rúmeníu.
Rúnar fékk sig lausan frá Astana í Kasakstan þar sem hann átti eitt ár eftir af samningi en félagið er í talsverðum fjárhagserfiðleikum af völdum kórónuveirunnar. Rúnar lék með Astana í hálft annað ár og varð meistari með liðinu árið 2019 eftir að hafa leikið með því seinni hluta þess tímabils.
Hann lék 15 af 20 leikjum Astana í A-deildinni í Kasakstan tímabilið 2020 og var markahæsti leikmaður liðsins með sex mörk en tímabilið var stytt mjög vegna kórónuveirufaraldursins.
Rúnar er þrítugur miðjumaður og spilaði fyrst 14 ára gamall með Tindastóli árið 2005 en lék síðan í þrjú ár með HK, þar af eitt tímabil í úrvalsdeildinni, árið 2008. Rúnar lék með Val frá 2010 til 2013 en hefur verið atvinnumaður síðan, með Sundsvall í Svíþjóð, Grasshoppers og St. Gallen í Sviss og nú síðast Astana í Kasakstan.
Hann hefur verið í íslenska landsliðinu undanfarin ár og á 30 A-landsleiki að baki, m.a. fimm af síðustu sex leikjum ársins 2020.
Rúnar hefur leikið 304 deildaleiki á ferlinum og skorað í þeim 60 mörk, þar af eru 172 leikir og 35 mörk í atvinnumennsku erlendis. Áður hafði Rúnar spilað og skorað í fjórum efstu deildum Íslandsmótsins, þar af leikið 82 úrvalsdeildarleiki með Val og HK og skorað í þeim 19 mörk.
CFR Cluj vann rúmenska meistaratitilinn þriðja árið í röð á síðasta tímabili, 2019-20, en liðið endaði fimm stigum á undan næsta liði, Universitatea Craiova, eftir útisigur í hreinum úrslitaleik liðanna í lokaumferðinni. Liðið hefur þar með orðið sex sinnum meistari eftir að hafa unnið titilinn fyrst árið 2008.
Í framhaldi af því lék liðið í forkeppni Meistaradeildar Evrópu, féll þar út í 2. umferð eftir vítaspyrnukeppni gegn Dinamo Zagreb frá Króatíu, en sigraði síðan Djurgården frá Svíþjóð og KuPS frá Finnlandi og tryggði sér sæti í riðlakeppni Evrópudeildarinnar. Þar fékk CFR Cluj fimm stig í sex leikjum við Roma frá Ítalíu, Young Boys frá Sviss og CSKA Sofia frá Rúmeníu en endaði í þriðja sæti og komst ekki áfram.
CFR Cluj er í öðru sæti rúmensku 1. deildarinnar, Liga 1, eins og efsta deildin heitir í landinu, einu stigi á eftir FCSB (áður Steaua Búkarest), en á leik til góða sem einmitt fer fram í kvöld, og getur því náð tveggja stiga forystu á keppinautana sem töpuðu sínum leik um helgina.
Rúnar gæti spilað sinn fyrsta leik eftir viku, mánudagskvöldið 15. febrúar, en CFR Cluj á þá heimaleik gegn Voluntari sem er næstneðst af sextán liðum í deildinni.
Liðið hefur verið fastagestur í Evrópumótunum á seinni árum. Liðið komst í 32 liða úrslit Evrópudeildarinnar 2019-20 en féll þar út gegn Sevilla á Spáni eftir tvo jafnteflisleiki. Liðið byrjaði einmitt tímabilið á því að slá Rúnar og félaga í Astana út í 1. umferð undankeppni Meistaradeildarinnar.
Þá komst liðið í riðlakeppni Meistaradeildarinnar tímabilin 2010-11 og 2012-13 og vann í seinna skiptið m.a. Manchester United óvænt, 1:0, á Old Trafford.
Fimm leikmenn CFR Cluj voru í rúmenska landsliðshópnum fyrir umspilsleikinn gegn Íslandi á Laugardalsvellinum í október 2020 þar sem Ísland sigraði 2:1.
Heimavöllur CFR Cluj ber nafn Constantin Radulescu, goðsagnar hjá félaginu sem lék með liðinu 1950-1956 og þjálfaði það síðan margoft á árunum 1957 til 1995. Leikvangurinn, sem var endurbyggður 2008 vegna þátttöku félagsins í Meistaradeild Evrópu, rúmar 23 þúsund áhorfendur og rúmenska landsliðið hefur leikið á honum í undankeppnum HM og EM.