Komin til liðs við ósigrandi meistaralið

Kristrún Rut Antonsdóttir í leik með Selfyssingum.
Kristrún Rut Antonsdóttir í leik með Selfyssingum. Ljósmynd/Guðmundur Karl

Kristrún Rut Antonsdóttir knattspyrnukona frá Selfossi, sem síðast lék í Svíþjóð, er gengin til liðs við austurríska meistaraliðið St. Pölten.

Óhætt er að segja að hún sé komin í sigursælt lið en St. Pölten hefur orðið austurrískur meistari undanfarin sex ár og aðeins tapað einum leik í austurrísku A-deildinni frá árinu 2014.

Þá er liðið komið í sextán liða úrslit Meistaradeildar Evrópu eftir að hafa slegið út Mitrovica frá Kósóvó, CSKA Moskva frá Rússlandi og Zürich frá Sviss í fyrstu þremur umferðum keppninnar.

Í austurrísku deildinni í vetur hefur St. Pölten unnið alla níu leiki sína með markatölunni 47:4 og er með fimm stiga forskot á næsta lið, Austria Vín.

Kristrún er 26 ára gömul og leikur sem miðjumaður. Hún lék 82 deildaleiki með Selfyssingum en hefur á síðustu árum spilað með Chieti og Roma á Ítalíu, Avaldsnes í Noregi, BSF í Danmörku og spilaði seinni hluta síðasta árs með Mallbacken í sænsku B-deildinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert