Atlético Madrid nýtti ekki tækifæri til að ná tíu stiga forystu í spænsku 1. deildinni í knattspyrnu í kvöld.
Atlético, sem hafði unnið sextán af fyrstu nítján leikjum sínum, fékk Celta Vigo í heimsókn og mátti sætta sig við jafntefli, 2:2.
Þar með er liðið nú átta stigum á undan stórveldunum Barcelona og Real Madrid, með 51 stig gegn 43 hjá hinum tveimur. Atlético á auk þess einn leik til góða á keppinautana.
Santi Mina kom Celta yfir snemma leiks en Luis Suárez sneri leiknum Atlético í hag með tveimur mörkum með stuttu millibili. Hann jafnaði í lok fyrri hálfleiks og kom Atlético yfir með marki á 50. mínútu.
Allt stefndi í að það myndi duga en á 89. mínútu jafnaði Facundo Ferreyra og tryggði Celta óvænt stig.
Luis Suárez hefur nú skorað 16 mörk fyrir Atlético í deildinni og er markahæsti leikmaður hennar, hefur skorað þremur mörkum meira en Lionel Messi, hans gamli samherji hjá Barcelona, og Youssef En-Nesyri frá Marokkó sem leikur með Sevilla.