Rúnar er farinn frá Kasakstan

Rúnar Már Sigurjónsson, til vinstri, í leik með Astana.
Rúnar Már Sigurjónsson, til vinstri, í leik með Astana. Ljósmynd/Astana

Knattspyrnufélagið Astana í Kasakstan tilkynnti rétt í þessu að Rúnar Már Sigurjónsson landsliðsmaður væri farinn frá félaginu.

Samkomulag hefði verið gert milli hans og Astana um að rifta samningnum en Rúnar var samningsbundinn félaginu út þetta ár.

Á heimasíðu Astana segir að Rúnar sé á förum til annars félags og honum er þakkað fyrir mikla fagmennsku, bæði sem leikmaður liðsins, og í þeim viðræðum um samningsslitin sem nú eru í höfn.

Samkvæmt rúmenskum fjölmiðlum var Rúnar í viðræðum við rúmenska meistaraliðið CFR Cluj um helgina.

Rúnar kom til Astana sumarið 2019 og varð meistari með liðinu um haustið. Liðið varð síðan í þriðja sæti á keppnistímabilinu 2020 í Kasakstan.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert