Cristiano Ronaldo er á leiðinni í sinn 31. úrslitaleik á löngum og farsælum fótboltaferli eftir að Juventus tryggði sér í kvöld réttinn til að leika til úrslita í ítölsku bikarkeppninni.
Juventus hafði sigrað Inter Mílanó 2:1 á útivelli í fyrri viðureign liðanna í undanúrslitunum og nægði því jafntefli á heimavelli í kvöld. Því náði liðið með sterkum varnarleik en lokatölur urðu 0:0.
Ronaldo og félagar leika gegn annaðhvort Atalanta eða Napoli í úrslitaleiknum en þau gerðu markalaust jafntefli í fyrri leik sínum í Napoli og mætast aftur í Bergamo annað kvöld.