Fleiri mörk en leikir á fertugasta aldursári

Zlatan Ibrahimovic er í hörkuformi.
Zlatan Ibrahimovic er í hörkuformi. AFP

Svíinn Zlatan Ibrahimovic er einn þeirra sem eldast vel í íþróttunum en frammistaða hans með AC Milan í vetur vekur verðskuldaða athygli. 

Ibrahimovic hefur leikið ellefu leiki í ítölsku deildinni, Seríu A, í vetur og skorað 14 mörk. Geri aðrir betur. 

Liðinu gengur auk þess afskaplega vel. Svo vel raunar að það situr í toppsæti deildarinnar með 49 stig eftir tuttugu og eina umferð. Hefur unnið fimmtán leiki, gert fjögur jafntefli og einungis tapað tveimur leikjum. 

AC Milan varð síðast ítalskur meistari árið 2011 og hefur Ibrahimovic því hleypt auknu lífi í leik liðsins í vetur og nú er svo komið að liðið er líklegt til að berjast um titilinn. Ibrahimovic kom aftur til liðsins á síðasta ári en hafði einnig spilað með AC Milan frá 2010-2012. Tímabilið 2011-2012 skoraði hann 28 mörk í þrjátíu og tveimur leikjum fyrir liðið. 

Zlatan Ibrahimovic fæddist í Malmö 3. október árið 1981 og verður því fertugur eftir liðlega átta mánuði. Hann hefur leikið með Malmö, Ajax, Juventus, Inter Milan, Barcelona, AC Milan, París St. Germain, Manchester United og LA Galaxy á ferlinum. 

Zlatan Ibrahimovic í leik með Ajax gegn AC Milan árið …
Zlatan Ibrahimovic í leik með Ajax gegn AC Milan árið 2003. REUTERS

Ekki eru endilega mörg dæmi um að útileikmenn í knattspyrnu spili vel í hæsta gæðaflokki til fertugs. Einfaldar það nokkuð málið að setja hér markmenn til hliðar þar sem þeir eldast oft vel í íþróttinni og sleppa frekar við meiðsli. 

Hjá AC Milan má nefna varnarmanninn Paolo Maldini sem var rétt tæplega 41 árs þegar hann hætti að leika með Mílanóliðinu árið 2009 og var þá enn mikilvægur hlekkur í liðinu. Brasilíski bakvörðurinn Cafu reyndist AC Milan einnig vel á efri knattspyrnuárum en hann lék með liðinu frá 2003-2088 eða þar til hann var 38 ára. 

Þjóðverjinn Lothar Matthäus átti magnaðan feril og hætti hjá Bayern München þegar liðið sigraði í Meistaradeild Evrópu sumarið 2000. Þá var hann á fertugasta aldursári og bætti við einu tímabili í Bandaríkjunum. 

Lothar Mathäus í leik með Bayern seint á síðustu öld.
Lothar Mathäus í leik með Bayern seint á síðustu öld. MICHAEL URBAN

Þessa kappa má nefna sem dæmi um knattspyrnumenn sem náðu að endast lengi hjá bestu liðum Evrópu en upptalningin gæti að sjálfsögðu verið lengri. Íþróttamenn geta nú keppt í hæsta gæðaflokki mun lengur en áður og hefur þar af leiðandi færst í vöxt í knattspyrnunni eins og í öðrum greinum. Á síðari árum er það orðið mun algengara. Við höfum einnig séð um það ýmis dæmi í öðrum greinum að leikmenn eru í fantaformi í kringum fertugt. Ekki þarf að horfa lengra en til Guðjóns Vals Sigurðssonar og Alexanders Peterssonar í handknattleiknum. 

Hins vegar er nokkuð óvenjulegt að knattspyrnumenn nái háum aldri sem sóknarmenn í hæsta gæðarflokki eins og Zlatan Ibrahimovic hefur gert. Algengara er að þeir færist þá aftar á völlinn ef þeir eiga langan feril því snerpunni hættir til að svíkja menn þegar árin færast yfir.

Alexander Petersson er afar vel á sig kominn.
Alexander Petersson er afar vel á sig kominn. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert