Kominn af stað eftir langa fjarveru

Guðmundur Andri Tryggvason í leik með Víkingi sumarið 2019 en …
Guðmundur Andri Tryggvason í leik með Víkingi sumarið 2019 en þá skoraði hann 7 mörk fyrir liðið í úrvalsdeildinni. mbl.is/Arnþór Birkisson

Knattspyrnumaðurinn Guðmundur Andri Tryggvason er loksins farinn að æfa af fullum krafti eftir að hafa misst af öllu síðasta tímabili með norska liðinu Start.

Guðmundur Andri, sem er 21 árs gamall kantmaður, hefur verið í herbúðum Start frá 2018 þegar hann kom þangað frá KR en hefur enn ekki náð að spila deildaleik með félaginu. Hann var lánaður til Víkings allt tímabilið 2019 en missti svo algjörlega af tímabilinu 2020 vegna slæmra meiðsla. Hann á að baki 34 leiki í íslensku úrvalsdeildinni með KR og Víkingi og skoraði í þeim átta mörk og þá á Guðmundur Andri að baki 29 leiki með yngri landsliðum Íslands.

Start, undir stjórn Skagamannsins Jóhannesar Harðarsonar,  féll úr úrvalsdeildinni fyrir jólin eftir eitt ár þar og Guðmundur Andri freistar þess því að hjálpa því upp á nýjan leik á komandi keppnistímabili.

Start skýrði frá endurkomu Íslendingsins á samfélagsmiðlum sínum í dag þar sem rætt var við hann og liðsfélaga hans, Sander Sjökvist.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert