Thomas Müller, einn af lykilmönnum þýska knattspyrnufélagsins Bayern München, hefur greinst með kórónuveiruna. Hann mun því missa af úrslitaleik liðsins gegn hinu mexíkóska Tigres í heimsmeistaramóti félagsliða í Doha í Katar í kvöld.
Áður höfðu samherjar hans, þeir Leon Goretzka og Javi Martínez, greinst með veiruna undir lok janúarmánaðar og ferðuðust því ekki til Katar, þar sem heimsmeistaramótið fer fram.
Bayern er því án fjögurra leikmanna í úrslitaleiknum, sem hefst klukkan 18 í kvöld, þar sem Jerome Boateng ferðaðist heim til Þýskalands í gær eftir að fyrrverandi kærasta hans fannst látin á heimili sínu.
Müller mun einnig missa af leik Bayern í þýsku 1. deildinni gegn Arminia Bielefeld á mánudaginn kemur og leik liðsins gegn Eintracht Frankfurt aðra helgi. Þá mun hann hugsanlega einnig missa af fyrri leik liðsins gegn Lazio í Meistaradeild Evrópu þann 23. febrúar.