Pólska knattspyrnufélagið Lech Poznan staðfesti í kvöld komu Arons Jóhannssonar til félagsins. Framherjinn skrifaði undir samning við félagið sem gildir út árið, með möguleika á átján mánaða framlengingu.
Aron skoraði tólf mörk í 22 leikjum í sænsku úrvalsdeildinni með Hammarby á síðustu leiktíð en hefur verið án félags síðustu mánuði.
Aron, sem er uppalinn í Grafarvogi, er fæddur í Bandaríkjunum og hefur leikið 19 landsleiki fyrir Bandaríkjamenn. Lech Poznan er í tíunda sæti pólsku úrvalsdeildarinnar.
„Aron eykur möguleikana okkar í sóknarleiknum. Hann er hreyfanlegur og getur bæði spilað sem fremsti maður á miðjunni og sem framherji. Hann spilaði vel á móti okkur í Evrópudeildinni með Hammarby,“ er haft eftir Dariusz Zuraw þjálfara Lech Poznan á heimasíðu félagsins.