Knattspyrnumaðurinn Albert Guðmundsson var á skotskónum þegar lið hans AZ Alkmaar vann góðan 3:1 sigur gegn Heerenveen í hollensku úrvalsdeildinni í dag.
Staðan var 1:0 í hálfleik eftir að Calvin Stengs hafði komið Alkmaar yfir á 20. mínútu. Snemma í síðari hálfleik tvöfaldaði Teun Koopmeiners svo forystu liðsins með marki úr vítaspyrnu.
Á 54. mínútu minnkaði danski landsliðsmaðurinn Lasse Schöne, sem er nýgenginn til liðs við Heerenveen í annað sinn á ferlinum, muninn og staðan orðin 2:1.
Á 81. mínútu tryggði hins vegar Albert sigur Alkmaar með því að skora þriðja mark liðsins eftir undirbúning Stengs.
Albert er nú búinn að skora átta mörk í 23 leikjum í öllum keppnum á tímabilinu, auk þess að hafa lagt upp þrjú mörk til viðbótar.
Alkmaar fer með sigrinum upp í þriðja sæti hollensku úrvalsdeildarinnar, að minnsta kosti um sinn, en Vitesse getur endurheimt það með sigri gegn Twente síðar í dag.