Fljótt skipast veður í lofti í toppbaráttunni í ítölsku knattspyrnunni en Inter er nú í bílstjórasætinu í efstu deildinni eftir að liðið vann 3:1-heimasigur gegn Lazio í kvöld. Nágrannarnir og erkifjendurnir í AC Milan voru á toppnum fyrir umferðina en töpuðu óvænt gegn nýliðum í gær.
Romelu Lukaku skoraði tvö mörk í fyrri hálfleik áður en Gonzalo Escalante minnkaði muninn fyrir gestina eftir um klukkutíma leik. Lautaro Martínez rak hins vegar smiðshöggið á sigur Inter nokkrum mínútum síðar og eru nú lærisveinar Antonios Contes með 50 stig eftir 22 leiki, stigi meira en AC Milan sem tapaði gríðarlega óvænt gegn nýliðum Spezia í gærkvöldi, 2:0.