Fimm leikir fóru fram í þýsku bundesligunni í knattspyrnu i gær og tókst engu liðanna tíu að kreista fram sigur.
Líkurnar á þessari niðurstöðu eru væntanlega heldur litlar og hjá veðbönkum klóra menn sér líklega í hausnum yfir þessu.
Bayer Leverkusen og Mainz gerðu 2:2 jafntefli og sama niðurstaða varð hjá Dortmund og Hoffenheim.
Stuttgart og Hertha Berlín, liðin sem Eyjólfur Sverrisson lék með í Þýskalandi á sínum tíma, gerðu 1:1 jafntefli.
Markalaust jafntefli varð í tveimur leikjum. Annars vegar hjá Werder Bremen og Freiburg en hins vegar hjá Union Berlín og Schalke.
Evrópumeistararnir í Bayern München er í efsta sæti deildarinnar eins og stundum áður og eru með fjögurra stiga forskot á RB Leipzig.