Erum ekki sigurstranglegri gegn Liverpool

Julian Nagelsmann.
Julian Nagelsmann. AFP

Englandsmeistarar Liverpool mæta þýska liðinu RB Leipzig í fyrri leik liðanna í 16-liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu annað kvöld en leikurinn fer fram í í Búdapest þar sem ensk félög mega ekki ferðast til Þýskalands til 17. febrúar hið minnsta vegna sóttvarnaráðstafana.

Liverpool hefur átt erfitt uppdráttar undanfarið, liðið er búið að tapa síðustu þremur leikjum sínum og er ansi ólíklegt til að verja enska meistaratitilinn. Hjá Leipzig er staðan önnur, liðið hefur unnið þrjá deildarleiki í röð heima fyrir og er í öðru sæti deildarinnar. Julian Nagelsmann, þjálfari Leipzig, er þó ekki of brattur fyrir leikinn á morgun.

„Okkur gengur vel, við höfum unnið fjóra í röð og aðeins fengið á okkur eitt mark á meðan Liverpool hefur mistekist að vinna fimm af síðustu sjö,“ sagði Nagelsmann á blaðamannafundi rétt í þessu. „Þeirra reynsla gerir þá engu að síður sigurstranglegri en við höfum bætt okkur sem lið og getum unnið hvern sem er.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert