Skemmtilegt að flakka á milli

Kristrún Rut Antonsdóttir gekk til liðs við St. Pölten á …
Kristrún Rut Antonsdóttir gekk til liðs við St. Pölten á dögunum. Ljósmynd/Tom S

Knattspyrnukonan Kristrún Rut Antonsdóttir gekk til liðs við austurríska meistaraliðið St. Pölten á dögunum.

St. Pölten hefur orðið austurrískur meistari undanfarin sex ár og aðeins tapað einum leik í austurrísku A-deildinni frá 2014.

Kristrún, sem er 26 ára gömul, hefur komið víða við á atvinnumannsferli sínum en ásamt því að leika með uppeldisfélagi sínu Selfossi hefur hún leikið með Chieti og Roma á Ítalíu, Avaldsnes í Noregi, BSF í Danmörku og Mallbacken í sænsku B-deildinni.

„Samningur minn við Mallbacken í Svíþjóð rann út í nóvember á síðasta ári og ég kom heim þá,“ sagði Kristrún í samtali við Morgunblaðið. „Síðustu mánuðir hafa svo bara farið í það að skoða mín mál og hvað ég vildi gera. Ég var alveg tilbúin að spila á Íslandi í sumar og var með tilboð frá Selfossi.

Ég fékk hins vegar tilboð um miðjan janúar í gegnum umboðsmanninn minn frá St. Pölten og það vakti strax athygli mína. Hlutirnir gerðust hratt eftir það og ég skrifaði undir stuttu síðar,“ bætti Kristrún við en hún á að baki 55 leiki í efstu deild hér á landi með Selfossi þar sem hún hefur skorað fjögur mörk.

St. Pölten er með fullt hús stiga eða 27 stig í efsta sæti austurrísku A-deildarinnar eftir fyrstu níu umferðir tímabilsins.

„Ég hef verið mikið erlendis en á sama tíma þá heillar það mig í raun alveg jafn mikið að spila á Íslandi eins og erlendis. Eins og ég sagði áðan var ég nánast búin að ákveða það að taka alla vega eitt tímabil heima á Íslandi í sumar en svo kom tilboð frá Austurríki sem var erfitt að hafna.“

Viðtalið má sjá í heild sinni á íþróttasíðum Morgunblaðsins í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert