Ronald Koeman, knattspyrnustjóri Barcelona, segir franska liðið París St. Germain einfaldlega vera betra lið en Barcelona. Liðin mættust í fyrri leik liðanna í 16-liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu á þriðjudagskvöldið í Barcelona og vann París 4:1.
Koeman tjáði spænska blaðinu Marca að leiknum loknum að þrátt fyrir nokkuð jafnan fyrri hálfleik hafi París St. Germain haft yfirburði í síðari hálfleik. Þeir hafi verið miklu beinskeyttari ekki síst vegna Kylian Mbappe og fyrir vikið hafi Barcelona lent í miklum vandræðum í vörninni.
„Við verðum að horfast í augu við að þeir eru betra lið en við á heildina litið. Við verðum einfaldlega að bæta okkur,“ sagði Koeman og sagði möguleikana á því að komast áfram í 8-liða úrslitin vera afar litla úr því sem komið er.