Knattspyrnukonan Sandra María Jessen er barnshafandi en þetta staðfesti hún á samfélagsmiðlinum Instagram í dag.
Sandra, sem er 26 ára gömul og samningsbundin Bayer Leverkusen í Þýskalandi, á von á sér í lok ágúst en hún hefur ekkert leikið með þýska liðinu á þessu ári.
Hún er uppalin hjá Þór/KA á Akureyri en gekk til liðs við þýska félagið árið 2019 eftir að hafa leikið með því á láni frá Þór/KA árið 2016.
Þá hefur hún einnig leikið með Slavia Prag á láni frá Þór/KA en hún á að baki 116 leiki í efstu deild þar sem hún hefur skorað 73 mörk. Þá á hún að baki 31 A-landsleik þar sem hún hefur skorað sex mörk.
„Ég hef ekkert æft af viti á árinu og ekkert spilað á árinu heldur,“ sagði Sandra í samtali við mbl.is í dag en hún er gengin tæplega þrettán vikur.
„Ég var heima á Íslandi yfir jólin en hef æft mikið ein síðan ég kom aftur út stuttu eftir áramót. Ég lét forráðamenn félagsins vita um leið og ég vissi að ég væri barnshafandi en ég beið með að láta stelpurnar í liðinu vita þangað til fyrir tveimur vikum.
Ég þarf ekki að mæta á hverja einustu æfingu enda mishress þessa dagana. Ég reyni að mæta alla vega þrisvar í viku á styrktaræfingar en ég er meira í því að hlaupa í kringum stelpurnar á meðan þær eru að æfa.
Félagið hefur stutt mjög vel við bakið á mér og þjálfarinn vildi að ég myndi spila alveg fram á fimmta mánuð en fæðingarlæknirinn var ekki alveg á því,“ bætti Sandra við.
FIFA samþykkti á dögunum nýja reglugerð um að atvinnukonur í knattspyrnu fái greitt fæðingarorlof þegar þær eignast börn.
„Sem betur fer eru komnar nýjar reglur hjá FIFA sem snúa að barneignum kvenna. Ég fæ því 70% af heildarlaunum mínum þegar orlofið byrjar og Leverkusen mun borga mér full laun á meðan ég er með samning við félagið en hann rennur út í sumar. Síðan tekur bara við fæðingarorlof en ég er velkomin aftur til félagsins ef barn og heilsa leyfa. Það er mjög gott að hafa þetta á bak við eyrað að maður sé áfram velkominn þarna.
Kærastinn minn er þýskur og er frá Wupptertal. Við fáum nýja íbúð hérna á næstu dögum og ætlum okkur að vera hérna áfram, til að byrja með í það minnsta. Við ætlum okkur að eignast barnið hérna úti en auðvitað væri gaman að flytja aftur heim. Ég veit hins vegar ekki hvort það verður á næsta ári eða eftir sjö til átta ár. Eins og staðan er í dag sé ég alveg framtíðina fyrir mér hérna úti enda líður mér mjög vel í Þýskalandi.“
Sandra María hefur verið fastakona í íslenska landsliðinu undanfarin ár en Ísland leikur í lokakeppni EM 2022 á Englandi næsta sumar.
„Þetta var alls ekki planað og kom mjög óvænt upp. Ég og kærastinn minn ræddum alla möguleika í stöðunni og hvað væri skynsamlegast að gera með fótboltann til hliðsjónar. Við tókum þá sameiginlegu ákvörðun að eignast þetta barn og ef það er einhvern tímann góður tími þá er það núna þar sem Evrópumótinu var frestað um eitt ár.
Ef ég ákveð að setja mér markmið um að koma mér aftur í landsliðið þá veit ég alla vega að ég hef góðan tíma til þess en það þarf auðvitað allt að ganga upp. Auðvitað er alltaf svekkjandi að missa af landsleikjum en Steini [Þorsteinn Halldórsson landsliðsþjálfari] er búinn að heyra í mér nú þegar og veit hver staðan er,“ bætti Sandra María við í samtali við mbl.is.