Landsliðsmaður að færa sig um set?

Mikael Neville Anderson í leik með Midtjylland.
Mikael Neville Anderson í leik með Midtjylland. Ljósmynd/Midtjylland

Mikael Neville Anderson, leikmaður danska knattspyrnuliðsins Midtjylland og íslenska landsliðsins, gæti verið á förum frá félaginu á næstunni.

Orri Rafn Sigurðarson, lýsandi á Viaplay og sérfræðingur í dönsku knattspyrnunni, segir á Twitter-aðgangi sínum í gær að honum hafi borist það til eyrna að Mikael hafi sagt forsvarsmönnum Midtjylland að hann vilji yfirgefa félagið með það fyrir augum að fá að spila meira.

Orri greinir jafnframt frá því að áhugi sé á Mikael frá liðum í Rússlandi og Svíþjóð.

Í frétt Fótbolta.net um málið segir að uppákoma á æfingu milli Mikaels og samherja hans, Sory Kaba, gæti haft eitthvað að segja um beiðni Mikaels um sölu.

Mikael og Kaba lenti saman á æfingu á dögunum og voru þeir í kjölfarið hvorugur í hóp hjá Midtjylland í næsta deildarleik, 1:0 sigri gegn Randers.

Nokkrum dögum síðar voru Mikael og Kaba svo báðir í hóp og komu báðir inn á í bikarleik, 2:1 sigri gegn OB. Í síðasta deildarleik, 1:0 sigri gegn Horsens, var Mikael svo aftur utan hóps en Kaba kom inn á sem varamaður í þeim leik.

Á dögunum renndi Mikael sjálfur stoðum undir sögusagnirnar um að hann vilji yfirgefa Midtjylland, þegar hann sagði á Twitter-aðgangi sínum: „Breyting á umhverfi getur gert kraftaverk.“

Þar vísaði hann til félagsskipta enska knattspyrnumannsins Jesse Lingard í byrjun mánaðarins, en hann fór á láni til enska liðsins West Ham United frá Manchester United og hefur byrjað vel hjá nýju liði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert