Borussia Dortmund vann auðveldan 4:0-útisigur á botnliði Schalke í þýsku 1. deildinni í fótbolta í kvöld. Eins og oft áður var Norðmaðurinn Erling Braut Haaland í miklu stuði hjá Dortmund.
Englendingurinn ungi Jadon Sancho kom Dortmund yfir á 42. mínútu og þremur mínútum síðar lagði hann upp mark á Haaland og var staðan í hálfleik 2:0.
Raphaël Guerreiro skoraði þriðja mark Dortmund á 60. mínútu og Haaland bætti við öðru marki sínu og fjórða marki Dortmund á 79. mínútu og þar við sat.
Dortmund er í sjötta sæti deildarinnar með 36 stig, þrettán stigum á eftir toppliði Bayern München.
Haaland er með 17 mörk í 16 leikjum með Dortmund á leiktíðinni. Hann er í þriðja sæti yfir markahæstu menn deildarinnar. André Silva hjá Frankfurt er með 18 mörk og Robert Lewandowski hjá Bayern með 25 mörk.