Evrópumeistarar Bayern München töpuðu í dag óvænt fyrir Eintracht Frankfurt á útivelli í þýsku 1. deildinni í fótbolta, 1:2.
Daichi Kamada og Amin Younes komu Frankfurt í 2:0 á fyrsta hálftímanum og var staðan í hálfleik 2:0. Robert Lewandowski minnkaði muninn á 53. mínútu en Bayern tókst ekki að jafna þrátt fyrir mikla pressu í lokin.
Þrátt fyrir tapið eru Bæjarar í toppsætinu með 49 stig, fimm stigum á undan Leipzig sem á leik til góða. Frankfurt er í fjórða sæti með 42 stig.