Inter fór illa með nágranna sína og erkifjendur í AC Milan í ítölsku toppbaráttunni í dag. Liðið vann 3:0-sigur og er nú með fjögurra stiga forystu á toppi efstu deildarinnar í knattspyrnu.
AC Milan hefur aðeins fatast flugið undanfarið og er liðið nú búið að tapa tveimur leikjum í röð. Lautaro Martínez kom Inter í forystu strax á fimmtu mínútu og hann bætti við marki á 57. mínútu áður en Romelu Lukaku innsiglaði sigurinn tíu mínútum síðar.
Inter er sem fyrr segir á toppnum með 53 stig eftir 23 leiki en AC Milan er með 49 stig.