Lionel Messi er orðinn leikjahæsti leikmaður Barcelona í spænsku efstu deildinni í knattspyrnu eftir að hann og félagar hans urðu að sætta sig við gríðarlega svekkjandi jafntefli gegn nýliðum Cádiz á heimavelli í dag.
Messi var að spila sinn 506. deildarleik fyrir félagið og er hann nú einn leikjahæstur en kempan Xavi spilaði á sínum tíma 505 leiki. Argentínumaðurinn fagnaði áfanganum með því að koma heimamönnum í forystu úr vítaspyrnu á 32. mínútu og stefndi allt í heimasigur.
Gestirnir, sem fengu úr litlu að moða allan leikinn, fengu hins vegar sjálfir vítaspyrnu undir lok leiks eða á 89. mínútu þegar Clément Lenglet braut af sér inn í vítateig. Álex Fernandez fór á punktinn og skoraði til að kreista fram jafntefli.
Barcelona mistókst þar með að saxa á forystu Atlético Madríd á toppi deildarinnar. Barcelona er með 47 stig í 3. sæti, fimm stigum á eftir Real Madríd og átta stigum á eftir Atlético.