Bandaríkin eru með tvo sigra í tveimur leikjum á SheBelieves-mótinu sterka eftir 2:0-sigur á Brasilíu í Flórída í kvöld. Á mótinu keppa fremstu lið í fótbolta í kvennaflokki.
Christen Press kom heimsmeisturunum yfir með marki á 10. mínútu og stjarnan Megan Rapinoe gulltryggði 2:0-sigur með marki á 87. mínútu, kortéri eftir að hún kom inn á sem varamaður.
Bandaríkin unnu 1:0-sigur á Kanada í fyrsta leik mótsins á meðan Brasilía vann Argentínu, 4:1. Bandaríkin mæta Argentínu aðfaranótt fimmtudags og Brasilía mætir Kanada.