Cristiano Ronaldo er orðinn markahæsti leikmaður ítölsku A-deildarinnar í knattspyrnu á þessu tímabili eftir að hafa skorað tvívegis fyrir Juventus í 3:0 sigri á Crotone í kvöld.
Ronaldo hefur þar með gert 18 mörk í deildinni í vetur, einu meira en hinn belgíski Romelu Lukaku sem í gær skoraði eitt mark fyrir Inter Mílanó í 3:0 sigri á AC Milan í grannaslag toppliðanna.
Hinn 39 ára gamli Zlatan Ibrahimovic er síðan þriðji markahæstur með 14 mörk, jafn þeim Ciro Immobile hjá Lazio og Luis Muriel hjá Atalanta.
Inter er með 53 stig á toppi deildarinnar, AC Milan er með 49 stig og Juventus 45 en Juventus á einn leik til góða á keppinautana.