Sautján ára gamall Englendingur, Jamal Musiala, varð í kvöld næstyngsti markaskorarinn í útsláttarkeppni Meistaradeildar karla í fótbolta frá upphafi.
Hann var í byrjunarliði Bayern München og skoraði annað mark Evrópumeistaranna í sannfærandi 4:1 útisigri þeirra gegn Lazio í Róm.
Musiala er 17 ára og 363 daga gamall í dag en metið í útsláttarkeppninni á Spánverjinn Bojan Krkic sem skoraði 17 ára og 217 daga gamall fyrir Barcelona gegn Schalke í apríl árið 2008.
Þá er Musiala að sjálfsögðu yngsti Englendingurinn sem hefur skorað í útsláttarkeppni Meistaradeildarinnar.
Musiala, sem verður 18 ára á föstudaginn, fæddist í Stuttgart í Þýskalandi. Faðir hans er Nígeríumaður en móðirin Þjóðverji. Átta ára gamall flutti hann til London með móður sinni, gekk til liðs við Chelsea og var í röðum Lundúnaliðsins í átta ár.
Sextán ára sneri hann aftur til Þýskalands og gekk til liðs við Bayern München. Síðasta vetur spilaði hann með varaliði félagsins í þýsku C-deildinni en hann á nú að baki 17 leiki með aðalliðinu í efstu deild og hefur skorað í þeim þrjú mörk.
Musiala hefur leikið með yngri landsliðum Englands frá 15 ára aldri og var valinn í 21-árs landsliðið í nóvember og skoraði í 5:0 sigri gegn Albaníu í sínum öðrum leik í þeim aldursflokki.