Lionel Messi og danski sóknarmaðurinn Martin Braithwaite voru í aðalhlutverkum hjá Barcelona í kvöld þegar Katalóníuliðið vann Elche 3:0 í spænsku 1. deildinni í knattspyrnu.
Eftir markalausan fyrri hálfleik skoraði Messi á 48. mínútu eftir sendingu frá Braithwaite. Messi var aftur á ferðinni á 69. mínútu og kom Barcelona í 2:0 eftir sendingu frá Frenkie de Jong.
Braithwaite lét aftur til sín taka á 73. mínútu þegar hann lagði upp þriðja mark Barcelona fyrir Jordi Alba.
Barcelona fór með sigrinum uppfyrir Sevilla og í þriðja sætið með 50 stig. Atlético Madrid er með 55 stig og Real Madrid 52 í tveimur efstu sætunum.
Messi er nú orðinn markahæstur í deildinni með 18 mörk, tveimur mörkum meira en Luis Suárez, fyrrverandi liðsfélagi hans, sem hefur gert 16 mörk fyrir Atlético Madrid.