Tvö af sigursælustu knattspyrnufélögum Evrópu, Manchester United og AC Milan, drógust í dag saman í sextán liða úrslitum Evrópudeildar UEFA.
Fyrri leikurinn fer fram á Old Trafford í Manchester en sá síðari á San Siro í Mílanó. Zlatan Ibrahimovic fær þar tækifæri til að spila með AC Milan gegn sínum gömlu félögum í Manchester United en hann spilaði með enska liðinu á árunum 2016-2018.
Lið íslensku landsliðsmarkvarðanna Ögmundar Kristinssonar og Rúnars Alex Rúnarssonar, Olympiacos og Arsenal, drógust saman. Arsenal fer því á „heimavöll“ í útileiknum gegn Olympiacos því heimaleikur enska liðsins gegn Benfica frá Portúgal var leikinn þar í gærkvöld. Olympiacos sló Arsenal út í 32ja liða úrslitum keppninnar á síðasta tímabili.
Björn Bergmann Sigurðarson og félagar í Molde frá Noregi sem mjög óvænt slógu út Hoffenheim frá Þýskalandi í gærkvöld drógust gegn Granada frá Spáni.
Þessi lið mætast:
Ajax (Hollandi) - Young Boys (Sviss)
Dynamo Kiev (Úkraínu) - Villarreal (Spáni)
Roma (Ítalíu) - Shakhtar Donetsk (Úkraínu)
Olympiacos (Grikklandi) - Arsenal (Englandi)
Dinamo Zagreb (Króatíu) - Tottenham (Englandi)
Manchester United (Englandi) - AC Milan (Ítalíu)
Slavia Prag (Tékklandi) - Rangers (Skotlandi)
Granada (Spáni) - Molde (Noregi)
Engar takmarkanir voru í drættinum, hvorki styrkleikaflokkar né hindranir vegna landa, þannig að allir gátu dregist gegn öllum.